FORSÍÐA | FÉLAGIÐ | STARFSEMIN | SKÝRSLUR | LÖG FÉLAGSINS | FÉLAGATAL | GERAST FÉLAGI

Eldri fréttir

 

Vinnukvöld í Hellisskógi
Dagana 28. og 30. maí 2013 mættu nokkrir félagar í Skógræktarfélaginu og plöntuðu og bára á. Fyrra kvöldið mættu 10 félagsmenn og plöntuðu 480 sitkagreni- og 480 birkiplöntum vestan við Hellinn. Síðara kvöldið mættu 6 og plöntuðu 210 elri plöntum, 40 skógarfurum og 140 alaskaöspum. Plantað var á svipuðum slóðum vestan við Hellinn.

Í júní og júlí verður vinnuflokkur í Hellisskógi undir stjórn Ólafs Hákons Guðmundssonar. Einkum verður unnið við gerð og viðhald á göngustígum en einnig almenn skógarvinna.

Undanfarnar vikur hefur Björgvin Örn Eggertsson unnið við grisjun skógarins. Mikil vinna er framundan í grisjun og viðhaldi, en slíkt er einkum á færi fagmanna með undirstöðu þekkingu og viðeigandi verkfæri.

Efri myndin er af Björgvin, Guðmundi og Hermanni fyrra plöntunarkvöldið og myndin til hliðar af Björgvin við grisjunarstörf.

Ljósm: Örn ÓskarssonFramkvæmdir í Hellisskógi.
Í maí 2013 var unnið að frekari framræslu í Hellisskógi. Grafnir voru grunnir skurðir í mýri og móa vestan við Hellinn. Einnig var búin til lítil tjörn á svæðinu. Ásamt því að lækka aðeins vatnssöðu í mýrunum veita skurðirnir vatni í tjarnir og viðhalda vatni í þeim á þurrkatímum á sumrin.

Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss
var haldinn mánudaginn 22. apríl 2013 kl. 18 í Árvökum (starfsmannabústað) á Snæfoksstöðum.
Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf. Stórn félagsins var endurkjörin.
Á fundinum var boðið upp á og síðan var kynnt starfssemi Skógræktarfélags Árnesinga og nýting á skógarafurðum á Snæfoksstöðum (heimsókn í skemmuna).

Verkefni sumarsins 2012 í Hellisskógi.
Sjálfboðaliðar á vegum skógræktarfélagsins plöntuðu birki, sitkagreni og alaskaösp í reiti austan við Hellinn dagana 11. og 13. júní.
Tveir starfsmenn unnu í Hellisskógi í tvo mánuði í sumar undir verkstjórn Ólafs Hákonar stjórnarmanns í Skógræktarfélaginu. Verkefnin voru margvísleg. Unnið var við lagfæringar á göngustígum víða um skóginn, viðgerðir og lagfæringar á ræsum, lokafrágang við göngubrú við eystri mörk Hellisskógar auk ýmissa minni verkefna. Einnig var bekkjum og borðum fjölgað í skóginum. Áfram var unnið við grisjun sem er þegar orðin árleg framkvæmd og fer vaxandi.

Mynd: Brönugrös fundust í fyrsta skipti í Hellisskógi í sumar. Augljós árangur beitarfriðunar.

Vinnukvöld í Hellisskógi.
Mánudaginn 11. júní og miðvikudaginn 13. júní verða vinnukvöld í Hellisskógi. Mæting kl. 20 við bílastæðið við Biskupstungnabraut. Að lokinni vinnu bíður félagið upp á veitingar.

Verkefni sumarsins í Hellisskógi.
Tveir starfsmenn verða við störf í Hellisskógi í tvo mánuði í sumar undir verkstjórn Ólafs Hákonar stjórnarmanns í Skógræktarfélaginu. Meðal þeirra verkefna sem áætlað er að vinna er áningastaður við bílaplan neðan við minnismerkið, lagfæringar á göngustígum víða um skóginn, viðgerðir og lagfæringar á ræsum í stíg í víkinni ofan við efsta veiðisvæðið, lokafrágangur við göngubrú við eystri mörk Hellisskógar auk ýmissa minni verkefna. Þá er áætlað að fjölga bekkjum og borðum í skóginum. Unnið verður við grisjun sem er þegar orðin árleg framkvæmd og fer vaxandi. Á framkvæmdaáætlun ársins 2012 er einnig vegagerð við Biskupstungnabraut en þar á að opna skóginn frá þjóðvegi og gera stutta akleið og snúningstorg inn í skóginum.

24.apríl 2012
Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss 2012
Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss var haldinn mánudaginn 23. apríl í starfsmannahúsi Skógræktarfélags Árnesinga á Snæfoksstöðum.
Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf. Starfið í sumar var rætt. Stjórnin var endurkjörin.
Björgvin Eggertsson - formaður
Snorri Sigurfinnsson - ritari
Örn Óskar
sson - gjaldkeri
Meðstjórnendur eru sem fyrr Hermann Ólafsson og Ólafur Guðmundsson.

12.04. 2012
Vorið er komið í Hellisskógi
Gróður í Hellisskógi kemur afar vel undan vetri. Það má þakka hagstæðu veðri lengst af og snjóþekju í desember og janúar. Hvergi var frost í jörðu í vetur og því trjágróður fljótur til um leið og fór að hlýna. Reklar eru nú komnir á víðitegundir og brumhnappar farnir að þrútna. Meira að segja birkið er farið að taka við sér. Nú er bara að vona að ekki skelli á með norðanátt og kuldahreti.

Mynd: Reklar á alaskavíði 12. apríl 2012. Ljósm. Örn Óskarsson

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss
Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss var haldinn mánudaginn 11. apríl í starfsmannahúsi Skógræktarfélags Árnesinga á Snæfoksstöðum.
Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf. Stjórn félagssins var endurkjörin. Boðið var upp á skógarsveppasúpu sem Snorri Sigurfinnsson sá um að útbúa.

Frétt af góðum vexti birkis í Hellisskógi á skogur.is.

Sjá fréttina hér.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands á Selfossi.
Dagana 27.-29. ágúst var aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2010 haldinn á Selfossi. Gestgjafar fundarins að voru Skógræktarfélag Árnesinga. Einn dagskrárliðurinn á laugardeginum 28. ágúst var fræðsluganga um Hellisskóg undir umsjón Skógræktarfélags Selfoss. Gengið var frá Hótel Selfoss upp að Helli og til baka aftur. Bjarni Harðarson var göngustjóri. Fjölmenni var í göngunni og veðrið lék við göngufólkið. Hellisskógur skartaði sínu fegursta og gróskan í skóginum vakti verðskuldaða athugli.

Minnismerki vígt í Hellisskógi.
Mánudaginn 23. ágúst síðastliðinn var minnismerki og listaverk afhjúpað í Hellisskógi. Verkið er til minningar um Júlíus Steingrímsson velgjörðarmann Skógræktarfélags Selfoss sem hefði orðið 100 ára 29. ágúst. Júlíus var mikill áhugamaður um skógrækt og tók virkan þátt í starfinu í Hellisskógi á meðan hann hafði heilsu til. Hann lést árið 2003 og ánafnaði félaginu stóran hluta af eigum sínum.
Verkið heitir "Hornsteinn og aðrir steinar á og við horn". Þór Sigmundsson steinsmiður hannaði og smíðaði verkið.

Nýr samningur um Hellisskóg
Miðvikudaginn 26. maí var undirritaður í Hellisskógi nýr umsjónasamningur milli Sveitarfélagsins Árborgar og Skógræktarfélags Selfoss.
Á myndinni hér fyrir neðan sjást Ragnheiður Hergeirsdóttir bæjarstjóri og Björgvin Eggertsson formaður Skógræktarfélags Selfoss við undirritunina í Hellisskógi.


Ganga um Hellisskóg 14. maí 2010.
Gangan var í samvinnu við Vor í Árborg og fengu börnin stimpil í vegabréfið sem dreift hafði verið í öll hús í Árborg. Um 20 manns komu og löbbuðu um skóginn þar sem göngufólkið var frætt um starfsemi félagsins og þá ræktun sem fram hefur farið í Helliskógi. Göngustjóri var Björgvin Eggertsson.
Á myndinni er hluti af göngufólkinu. Smellið á myndina til að stækka.

Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss
Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss var haldinn í starfsmannabústaðnum á Snæfoksstöðum miðvikudaginn 7. apríl. Auk venjulegra aðalfundastarfa kynnti Þór Sigmundsson tillögu sína að minnismerki um Júlíus Steingrímsson sem mun rísa í Hellisskógi.
Á fundinum var boðið upp á sveppasúpu sem ritari félagssins Snorri Sigurfinnsson matreiddi.
Stjórn skógræktarfélgssins var endurkjörin á fundinum.

 


HÖNNUN OG UMSJÓN: ÖRN ÓSKARSSON 2012. Skógræktarfélag Selfoss, hellisskogur@gmail.com